Innivera eftir veikindi

Leikskólinn er fyrir frísk börn og er útivera mikilvægur þáttur í leikskólastarfinu jafnt að sumri sem vetri.

Ýmsar umgangspestir herja á leikskólabörn og er mikilvægt að þau fái að vera heima ef heilsa þeirra er ekki góð. Það er erfitt fyrir barnið að vera í stórum hóp barna ef heilsan er slæm og einnig eru líkur á að barnið smiti önnur börn og kennara. Eftir veikindi er mikilvægt að halda barni hitalausu heima í einn til tvo daga áður en það kemur aftur í leikskólann.

Kennarar skólans eru meðvitaðir um að fyrir störfum hlaðna foreldra er oft togstreita á milli foreldrahlutverksins og starfsins/námsins, en réttur barnsins er tvímælalaust að vera heima í ró og næði á meðan veikindin ganga yfir.

Reglur Lækjar varðandi inniveru eru:

Innivera eftir veikindi er að hámarki einn til tveir dagar.

Möguleiki er á styttri útiveru í þeim tilfellum sem það á við, þ.e. að barnið fari síðast út og komi fyrst inn.

 

Lyfjagjafir

Í samráði við landlæknisembættið var sú vinnuregla sett í leikskólum Kópavogsbæjar að kennarar gæfu börnum ekki lyf á leikskólatíma. Landlæknisembættið sendi fyrirmæli á allar heilsugæslustöðvar og hvatti lækna að ávísa lyfjum til leikskólabarna þannig að hægt væri að gefa lyf fyrir skóla og þegar komið væri heim úr skóla.

Í undantekningartilfellum þarf að gefa lyf á leikskólatíma og þurfa foreldrar að ræða sérstaklega við deildarstjóra vegna þess.